Stóra-Vatnsskarð og Kvistir

Ræktun fer fram á Stóra-Vatnsskarði og eru öll okkar ræktun kennd við þann bæ. Þjálfun fer síðan fram á Kvistum í Ölfusi, en einnig höfum við hesta til sölu.

Það má segja að ferill Lukku hafi verið líkastur öskubusku ævintýri en þegar ég sótti hana norður á Vatnsskarð um haustið 2004 grunaði engann að hún ætti eftir að ná þeim árangri í kynbótadómi sem hún hefur nú náð. Þetta haust fór ég norður til að sækja nokkur tryppi sem átti að fara að temja. Ein hryssan í réttinni var ansi fyrirferðarmikil og því nefndi ég það við pabba að ég yrði að taka þessa suður svo hún myndi nú ekki slasa gamla manninn. Þar sem ég skoðaði hana þarna í réttinni leist mér betur og betur á gripinn. Eitthvað hefur gamli maðurinn skynjað hvað ég var að spá því hann sagði að úr því að mér litist svona vel á mætti ég eiga hana, þó með því skilyrði að ef hún yrði góð þá mætti ég ekki selja hana. Hann hefur nú oft gaukað að mér hrossum fyrr en þessi kvöð var alveg ný.

Þrátt fyrir að vera dálítið villt spektist Lukka fljótt, var fljót að læra og vildi allt fyrir manninn gera. Strax fyrsta veturinn sýndi hún mikinn kjark, var alltaf fremst í rekstri og ákveðin í að vera drottningin í hópnum. Önnur hross skynjuðu þessa miklu yfirburði svo engu hrossi datt í hug að hreyfa við henni.

Á þessum tíma var Hansi (Hans Þór Hilmarsson) á Hólum en fór á bak Lukku þegar hann kom á Kvista í fríum. Hansi sá að mestu um tamninguna á henni og skilaði því verki frábærlega. Eitt sinn varð Helga Má, vini Hansa, það á orði að þessi meri ætti eftir að verða heimsmeistari. Á þessum tímapunkti tókum við þó hæfilegt mark á þessum orðum. Veturinn eftir hélt Hansi áfram að þjálfa Lukku og gekk það allt eins og best var á kosið. Um vorið vakti hún mikla athygli á ræktunarsýningu og því reyndi mikið á kvöðina frá gamla manninum.

Vorið 2006 hlaut hún 8,42 fyrir byggingu og 8,29 fyrir hæfileika, með meðaleinkunn 8,34 í kynbótadóm. Þar með var hún komin inn á landsmót sama ár þar sem hún hafnaði í 7. sæti í flokki fimm vetra hryssna. Þarna vissum við að hún ætti mikið inni og hafði langt í frá sýnt sína bestu kosti. Því ákváðum við að halda henni geldri og taka stefnuna á landsmót 2008. Hansi hélt áfram að þjálfa hana veturinn 2007, fór með hana í gæðingakeppnir og á Íslandsmót þar sem þau stóðu sig ávalt með ágætum. Síðsumars fór hann með hana í kynbótadóm á Hellu þar sem hún hlaut frábæran dóm, 8,46 fyrir byggingu og 8,70 fyrir hæfileika, með meðaltal 8,61. Þar með var hún hæst dæmda hryssa þessa árs. Þetta var frábær árangur hjá þeim og ánægjuleg uppskera eftir vel unna vinnu sem skilaði sér svo sannarlega.

Veturinn 2008 tók ég síðan við þjálfun á Lukku og ákveðið var að Þórður Þorgeirsson myndi sýna hana um vorið. Til að brjóta upp venjulegt útreiðarmynstur hef ég reynt að leggja áherslu á fjölbreytni í þjálfun. Því var Lukka m.a. í sundi hjá Faxa hestum veturinn 2007 og svo á sundbretti á Kvíarhóli 2008. Þessi þjálfun hefur hjálpað til með að gera gott hross enn betra en auk þess fékk ég góða leiðsögn hjá sænskum þjálfara, Johanni Höggberg. Enn fremur var ég undir smásjá Þórðar sem ætlaði sér stóra hluti með vorinu og því betra að vanda sig og klúðra engu.

Það er skemmst frá því að segja að allt gekk eins og í sögu og í dómi vorið 2008 hlaut Lukka 8,46 fyrir byggingu og 9,13 fyrir hæfileika, með meðaleinkunnina 8,86. Á landsmóti bætti hún um betur og hlaut 9,18 fyrir hæfileika, með meðaleinkunn 8,89. Þarna var hún komin með hæstu meðaleinkunn sem íslenskt hross hefur hlotið fyrr og síðar og þar með sönnuðust orð Helga Más um að hér væri kominn heimsmeistari.

Afkvæmi Lukku

Síðan á landsmóti 2008 hefur Lukka gefið af sér mörg frábær afkvæmi. Fyrst Lukku-Láka vorið 2009, og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt eftir það.
Lukku-Láki

Lukku-Láki

M: Lukka frá Stóra-Vatnsskarði
F: Álfur frá Selfossi
Sköpulag: 8.46
Hæfileikar: 8.70
Aðaleinkunn: 8.60

Sara

Sara

M: Lukka frá Stóra-Vatnsskarði
F: Orri frá Þúfu í Landeyjum
Sköpulag: 8.69
Hæfileikar: 8.27
Aðaleinkunn: 8.44

Kylja

Kylja

M: Lukka frá Stóra-Vatnsskarði
F: Kiljan frá Steinnesi
Sköpulag: 8.16
Hæfileikar: 8.88
Aðaleinkunn: 8.59

Sigur

Sigur

M: Lukka frá Stóra-Vatnsskarði
F: Álfur frá Selfossi
Sköpulag: 8.17
Hæfileikar: 8.36
Aðaleinkunn: 8.29

Hafðu samband

Hægt er að ná í okkur hér á síðunni, í síma eða líta við.

Kvistir, Ölfusi

Benni (+354) 898 9151
Gunna (+354) 895 1708 

Hafa samband